Upphafið
Saga fyrirtækisins er orðin nokkuð löng en það er rekið á kennitölu verslunarinnar Brynju frá árinu 1939. Verslunin hefur verið til húsa við Aðalstræti 3 á Akureyri til áratuga, enda þótt Aðalstræti 3 sé tæplega 70 ára gamalt er það í hópi yngstu húsa við Aðalstrætið. Húsið reistu þeir Steinþór Jensson og Þorvaldur Jónsson árið 1946 eftir teikningum Stefáns Reykjalín. Sá fyrrnefndi hafði keypt verslunarrekstur Brynju sem þá var í Aðalstræti 2, en verslunin Brynja er raunar sjö árum eldri en húsið sjálft, var stofnuð í Aðalstræti 2, húsinu skáhallt á móti árið 1939. Íbúð er á efri hæð hússins en verslun og allt sem henni tilheyrir (lager, kaffistofa o.fl.) á neðri hæð. Gengið er í verslun að vestan það er frá götu en á suðurhlið er inngangur fyrir íbúðina.